Niðurstaða alútboðsins mikil vonbrigði

Gamla Hamarshöllin sem fauk í febrúar. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar, segir að vonbrigðin hafi verið mikil þegar tilboð í byggingu nýrrar Hamarshallar voru opnuð í síðustu viku.

Fjórir aðilar sendu inn tilboð í alútboði, í hönnun og byggingu hússins og var lægsta tilboðið rúmlega 132 milljónum króna hærra en kostnaðaráætlun Hveragerðisbæjar. Áætlunin hljóðar upp á 1,1 milljarð króna og var reiknað með að verja 800 milljónum í verkið 2023 og 2024 og 200 milljónum til viðbótar árið 2025.

Í grein sem Sandra sendi sunnlenska.is í dag segir hún að næstu dagar verði nýttir vel í að fara yfir stöðuna með lögfræðingum og verkfræðingum bæjarins, meta stöðuna og sjá hvaða leiðir eru færar.

„Við munum leita allra leiða til að reyna að tryggja að sem minnstar tafir verði á uppbyggingu Hamarshallarinnar en fyrst og fremst að tryggja það að fjárhagsáætlun gangi eftir. Það er okkur kappsmál að skuldsetja ekki bæinn okkar frekar en lagt hefur verið upp með,“ segir Sandra.

Fyrri greinÖll tilboðin vel yfir áætlun
Næsta greinLandið með fránum augum Ásgríms