„Niðurskurður af þessum toga getur kostað mannslíf“

RITSTJÓRN VEKUR ATHYGLI Á ÞVÍ AÐ ÞESSI FRÉTT ER FRÁ ÁRINU 2013.

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands harmar fregnir af boðuðum niðurskurði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hvað varðar fyrirkomulag sjúkraflutninga í Árnessýslu.

Sjúkraflutningamönnum við HSu verður fækkað um áramótin og eftir það verður aðeins einn bíll á vakt á næturvöktum.

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands segir í ályktun að fækkun sjúkraflutningsmanna á vakt hverju sinni úr fjórum í tvo, 11 tíma sólarhringsins sé hættuspil.

„Svæðið sem sjúkraflutningsmönnum stofnunarinnar er ætlað að sinna er stórt og verkefnin oft á tíðum tímafrek. Útkallstími í neyðartilvikum kann við boðaðar breytingar að lengjast, jafnvel gæti það farið svo að engan sjúkrabíl væri að fá.

Það er ekkert launungarmál að niðurskurður af þessum toga getur kostað mannslíf,“ segir í ályktun félagsins sem hvetur til þess að hætt verði við boðaðar breytingar á mönnun sjúkrabifreiða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Árnessýslu.