Niðurgreiðslan hækkuð um 600 krónur

Niðurgreiðsla vegna daggæslu barna í Sveitarfélaginu Árborg verður hækkuð úr 24.400 krónum upp í 25 þúsund og niðurgreiðslukerfið verður útfært á annan hátt.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Árborgar í síðustu viku. Stefnt er að því að þessar breytingar taki gildi um áramótin.

Þetta er gert í kjölfar þess að fulltrúar foreldra með börn í daggæslu í sveitarfélaginu afhentu fulltrúum sveitarfélagsins undirskriftalista þar sem lágum endurgreiðslum var mótmælt.

Niðurgreiðslan verður hækkuð um sex hundruð krónur, eða um 2,5%. Útfærsla niðurgreiðslunnar breytist þannig að foreldrar þurfa ekki að leggja út fyrir öllum dagvistunargjöldunum til dagforeldra, heldur sækja dagforeldrar mismuninn til sveitarfélagsins. Áður þurftu foreldrarnir að mæta í ráðhúsið um hver mánaðarmót með greiðslukvittun og fá niðurgreiðsluna greidda.

„Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við meiri hækkun,“ segir Gústaf Lilliendahl, einn þeirra sem stóð að undirskriftarlistanum og bendir á að á Akranesi, sveitarfélagi sem hann lítur á sem sambærilegt við Árborg, sé niðurgreiðslan um 40 þúsund krónur.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri grein„Skilaboðin skýr hjá íbúum”
Næsta greinHin fjögur fræknu í beinni