Neyðarkerra á Klaustri

(F.v.) Hörður Bragason, Auðbjörg Bjarnadóttir og Atli Örn Gunnarsson. Ljósmynd/Klausturdeild RKÍ
Um síðustu helgi fékk Klausturdeild Rauða kross Íslands afhenta neyðarkerru frá Rauða krossinum. Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, formaður deildarinnar, veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd deildarinnar.

Neyðarkerra Rauða krossins er liður í aukinni fagmennsku neyðarvarna á landsvísu. Kerran inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. Kerran er létt og meðfærileg og flestir bílar með dráttarbeisli eiga að geta dregið hana án vandkvæða.
Meðal þess sem kerran inniheldur eru 30 beddar og 60 teppi, ýmiskonar skilti og merkingar, endurskinsvesti, stjórnendabúnaður, langbylgjuútvarp, 300 orkustangir, vatnsbrúsi og fjölbreyttur hlífðarbúnaður, öryggisvörur og hreinlætisvörur. Einnig er í kerrunni rafstöð, bensínbrúsi, ljósalugtir, vasaljós, rafhlöður, kerti og eldfæri svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrri greinGarðaskoðun í Hveragerði og Ölfusi
Næsta greinVegagerðin vék frá eigin skilmálum