Neyðarkall frá Sjóðnum góða

Úthlutað verður úr sjóðnum 15. og 16. desember í Selinu við Engjaveg á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Sjóðurinn góði hefur sent frá sér neyðarkall vegna mikils fjölda sem sótti um í sjóðinn.

„Þörfin er mun meiri í ár en undanfarin ár. Það eru komnar um 180 umsóknir og bak við hverja umsókn eru fjöldinn allur af börnum,“ segir Erla G. Sigurjónsdóttir, deildarstjóri Árnessýsludeildar Rauða krossins.

Í fyrra sóttu um 130 um í Sjóðinn góða og var það líka met ár. Sjóðurinn góði var settur á laggirnar árið 2008 og er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings, Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Sjóðurinn hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

Aðspurð hvað valdi þessari miklu aukningu segir Erla að það sé líklega vegna þess að samfélagið okkar sé er að stækka og ástandið í þjóðfélaginu að versna.

„Úthlutað verður úr sjóðnum 15. og 16. desember og verðum við í Selinu frá kl. 16 til 18 báða dagana. Flest framlögin koma að sjálfu sér, bæði frá félagsamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum. En nú er staðan hjá okkur þannig að við erum búin með það sem til er vegna fjölgunar á umsóknum og höfum því sent út neyðarkall og beðið þá sem eru aflögufærir að leggja sjóðnum lið.“

„Ég hvet alla til að leggja sitt af mörkum og leggja inn á reikninginn okkar en vinnan við þennan sjóð er gríðarlega mikil og að öllu eða mestu leyti unnin í sjálfboðavinnu. Ég vil nota tækifærið og þakka bæði þeim sem hafa lagt til peninga í sjóðinn og hvetja fólk til að leggja í Sjóðinn góða. Einnig öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa staðið í ströngu við að aðstoða við allt gangi upp,“ segir Erla að lokum.

Þeir sem vilja styrkja Sjóðinn góða geta lagt inn á eftirfarandi reikning: 325-13-301169, kennitala: 560269-2269. Margt smátt gerir eitt stórt.

Fyrri greinTveir atvinnubílstjórar kærðir
Næsta greinSirra er höfundur Kærleikskúlunnar 2021