Neyðarástand í Skálholtsdómkirkju

Skálholt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Neyðarástand skapaðist í Skálholtsdómkirkju fyrir stuttu þegar mikill vatnsleki varð í turni kirkjunnar. Kirkjuráð hefur brugðist hratt við og samþykkti í síðustu viku að þakinu yrði skipt út og allt ytra byrði kirkjunnar yrði endurnýjað.

Merkilegt bókasafn er í turnherbergjum kirkjunnar og verður það flutt yfir í Gestastofu Skálholts þar sem safnið mun fá viðunandi húsnæði með rannsóknaraðstöðu og sýningum á merkilegustu gripum safnsins. Þar á meðal eru bækur sem prentaðar voru í Skálholti á seinni hluta 17. aldar.

Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, segir mildi að bókasafnið hafi sloppið við vatnsflauminn.

„Þakrennur, sem liggja inní turni biluðu á klukkuloftinu og þar safnaðist upp vaðdjúpt vatn. Úr því lak niður á næstu hæðir turnsins þar sem hið sögufræga og merkilega bókasafn hefur verið geymt í áratugi,“ segir Kristján en hann gerði við rennuna til bráðabirgða og starfsfólk Skálholts verkaði upp pollana.

Kristján segir að oft hafi verið rætt um flutning bókasafnsins en nú verði ekki tafið við það frekar og farið í það af fullri einurð.

„Undirbúningur er þegar hafinn, bæði til að hægt sé að undirbúa bækurnar og pakka þeim og einnig koma upp varanlegri aðstöðu í Gestastofunni með nýjum skápum og góðri loftræstingu. Sjálfboðaliðar hafa verið í startholum lengi og bíður hópur fólks þess að geta handlangað bækurnar ofan úr turni, eftir lofinu, niður allar tröður og yfir í Gestastofuna. Þegar að því kemur verður öðrum einnig gefinn kostur á að skrá sig sem sjálfboðaliðar í þetta menningarlega mikilvæga verkefni,“ segir Kristján.

Steinflísar á þaki Skálholtsdómkirkju eru úr sér gengnar og þekjan er öll mosagróin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þakið úr sér gengið
Steinflísar á þaki Skálholtsdómkirkju eru úr sér gengnar og þekjan er öll mosagróin. Lengi hefur lekið í turninum niður í kirkju og hljóðar viðgerðaráætlun upp á nærri 100 milljónir króna í heild með þeim lagfæringum sem þegar höfðu verið ákveðnar í sumar.

„Það eru mjög góðar fréttir að kirkjuráð hafi nú tekið þessa ákvörðun og er stefnan að öllum endurbótum á kirkjunni að utan og innan verði lokið ekki síðar en á 60 ára afmæli dómkirkjunnar 2023. Þakið og vatnsskemmdir eru þó í algjörum forgangi,“ segir Kristján en kirkjan er friðuð og verður unnið að öllum endurbótum í fullu samráði við Minjastofnun Íslands.

Hagfellt að koma inn nýrri klukku
Meðal annarra viðhaldsverkefna í Skálholti má nefna endurgerð á útitröppum kirkjunnar og endurbótum á brunavörnum. Þá er í athugun endurbætt lýsing inní í kirkju og mun Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju kosta það verkefni auk þess sem fólk mun geta lagt þessu verkefni lið með framlögum í sjóðinn.

„Þá hefur verið rætt um það að þegar þekjan verður rofin á turnþakinu sjálfu væri hagfellt að koma nýrri klukku þar inn í stað þeirrar dönsku klukku sem féll af ramböltunum fyrir nokkrum árum og liggur þar uppi mölbrotin. Önnur verk sem byrjað verður á við kirkjuna er lagfæring á hleðslu undirgangsins og lagfæringar á minjasvæðinu en auk þess verður hlaðinn upp torfgarður á austur- og suðurbrún eldri kirkjugarðsins í samræmi við hleðsluna á norður- og austurhlið og um Virkishólinn, en sú framkvæmt er á vegum kirkjugarðsins með styrk frá Kirkjugarðaráði Íslands,“ segir Kristján að lokum.

Fyrri greinLyngheiðin tekin upp í sumar
Næsta greinHot Chip endurhljóðblandar Daða og Gagnamagnið