Neyðarkall björgunarsveita um helgina

Um næstu helgi munu sjálfboðaliðar björgunarsveita um allt land vera á ferðinni og selja Neyðarkall björgunarsveitanna.

Er þetta fimmta árið sem farið er í slíka fjáröflun og er óhætt að segja að almenningur hafi tekið björgunarsveitafólki afar vel og er þessi sala farin að skipta björgunarsveitir verulegu máli í fjármögnun starfsins.

Árið 2010 hefur verið annasamt og hafa stór og mikil verkefni sett svip sinn á það. Í janúar fór Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin til aðstoðar á Haiti eftir að stórir jarðskjálftar riðu þar yfir. Því þótti við hæfi að Neyðarkallinn í ár væri í líki rústabjörgunarmanns.

Ein stærsta aðgerð björgunarsveita frá upphafi fylgdi svo í kjölfarið þegar eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi og stuttu síðar í Eyjafjallajökli. Mikið álag var á sveitum á svæðinu og til að létta það voru kallaðar til björgunarsveitir af öllu landinu til aðstoðar. Brugðust þær afar vel við og var þessi gríðarstóra aðgerð því sameiginlegt verkefni allra landshluta.

Farið var í tvö stór útköll á Langjökli, í öðru þeirra var dreng bjargað úr sprungu og í hinu varleitað að skoskum mæðginum í snarvitlausu veðri auk þess sem björgunarsveitir sinntu að venju hundruðum annarra útkalla á sjó og landi.

Landsmenn eru hvattir til að taka vel á móti Neyðarkalli björgunarsveita og styrkja sína sveit til góðra verka samfélaginu til heilla.