Nettó úti í skógi

Undirritun samnings, til hægri Helga Dís Jakobsdóttir, markaðsstjóri Nettó og til vinstri Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Nettó og Skógræktarfélag Íslands hafa endurnýjað samstarfssamning um verkefnið Opinn skógur til næstu tveggja ára. Samningurinn lýtur að margvíslegum stuðningi við skógrækt og samvinnu vegna uppbyggingar á skógræktarsvæðum.

Nettó hefur verið stuðningsaðili að Opnum skógum um árabil enda fellur verkefnið vel að umhverfisstefnu fyrirtækisins. Í dag má finna sautján skógarsvæði víðs vegar um landið undir merkjum Opins skógar. Komið hefur verið upp útivistaraðstöðu, skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum á svæðunum. Á Suðurlandi eru þetta Snæfoksstaðir í Grímsnesi, Ásabrekka í Ásahreppi og Völvuskógur í Skógum undir Eyjafjöllum.

Gríðarlega ánægð með samstarfið
„Skógarnir ættu að vera auðþekkjanlegir landsmönnum á ferð þeirra um landið en við þá alla blakta bláir Nettófánar,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir, markaðsstjóri Nettó.

„Skógræktarfélagið er mikilvæg stoð í náttúru- og umhverfisvernd hér á landi og erum við því gríðarlega ánægð með þetta samstarf og að geta haldið áfram að þróa og bæta aðgengi að skógarsvæðum, svo fleiri geti notið þeirra miklu gæða sem felast í íslenskum skógum. Nú þegar vor er í lofti vonum við að sem flestir landsmenn geri sér ferð í Nettó-skóga, en skógardvöl og samvera er frábær heilsubót.“

Aukning í notkun skóga
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir „samstarf okkar við Nettó er liður í því að tryggja áframhaldandi vinnu við að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir um allt Ísland. Við sjáum mikla aukningu í notkun skóga, en undanfarin ár hafa vinsældir íþrótta- og heilsuviðburða í skógum landsins aukist mikið og gildir þá einu hvort um er að ræða keppnir eða viðburði ætlaða almenningi. Slíkt hefur mikið gildi fyrir lýðheilsu og skógarmenningu sem við erum stolt af að halda uppi.“

Fyrri greinBókarkynning með tónlistarívafi
Næsta greinÞórir hættir sem þjálfari Selfoss