Nettó styrkir Sjóðinn góða

Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir tók við styrknum úr hendi Finns Hafliðasonar, aðstoðarverslunarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Nettó á Selfossi afhenti afhenti Sjóðnum góða í dag 400 þúsund króna styrk í formi gjafabréfa. Úthlutunin er í tengslum við styrktarátakið Notum netið til góðra verka sem Nettó stóð fyrir í nóvembermánuði.

Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir, deildarstjóri Árnessýsludeildar Rauða krossins, tók við styrknum fyrir hönd Sjóðsins góða, úr hendi Finns Hafliðasonar, aðstoðarverslunarstjóra.

Styrkurinn kemur sér vel en í síðustu viku sendi Sjóðurinn góði frá sér neyðarkall þar sem umsóknarfjöldinn í sjóðinn hefur aldrei verið meiri.

Viðskiptavinirnir velja góðgerðarfélögin
Alls söfnuðust rúmar tíu milljónir í góðgerðarsöfnuninni Notum netið til góðra verka sem Nettó stóð fyrir í nóvember. Styrkirnir voru afhentir þeim félagasamtökum sem viðskiptavinir netverslunar Nettó völdu en það féll í skaut þeirra að ráðstafa 200 krónum frá Nettó, sem fylgdu með hverri pöntun, til góðgerðarfélags að eigin vali.

„Þetta er annað árið í röð sem við kjósum að fara þessa leið í góðgerðarmálum enda gaf þetta fyrirkomulag góða raun í fyrra og það sama verður sagt um söfnunina í ár. Við sjáum að viðskiptavinir netverslunarinnar hafa heilmiklar skoðanir á hvert styrkirnir eiga að fara. Það er ómetanlegt fyrir okkur sem fyrirtæki, sem leggur mikla áherslu á að vera bæði traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu, að viðskiptavinir gefi sér tíma í að aðstoða okkur við þetta,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

 

Fyrri greinTveir sektaðir fyrir að festa ekki börnin
Næsta greinEnn skelfur í Vatnafjöllum