Nessandur kemur ekki til greina sem urðunarstaður

Bæjarstjórn Ölfuss lítur svo á að Nessandur, úr landi jarðarinnar Ness í Selvogi, komi ekki til greina sem urðunarstaður fyrir sorp.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss var lagt fram bréf Sorpstöðvar Suðurlands þar sem óskað var eftir því við sveitarfélagið að það gefi formlegt svar við því hvort Nessandur komi til greina sem svæði til meðhöndlunar úrgangs. Aðalskipulag sveitarfélagsins kveður á um slíkt í dag og landeigandi vill nota svæðið til þess.

Bæjarstjórnin lítur hins vegar ekki svo á að Nessandur komi til greina sem urðunarstaður og hvetur bæjarstjórnin aðildarsveitarfélög Sorpstöðvar Suðurlands til þess að vinna að því sameiginlega að koma á samræmdu fyrirkomulagi við meðhöndlun úrgangs þar sem lögð verði áhersla á flokkun, nýtingu lífræns úrgangs til landbóta og lágmörkun úrgangs til urðunar.

Fyrri greinHamar steinlá í Hólminum
Næsta greinÚtibú Sparisjóðsins og Landsbankans verða sameinuð fljótlega