Nesey bauð best í gámasvæðið

Í gær voru opnuð tilboð í uppbyggingu gámasvæðis og veglagningu við Árneshverfi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Nesey ehf í Sandvíkurhreppi átti lægsta tilboðið.

Verkið felur í sér jarðvegsskipti og uppbyggingu á um 6.200 fermetra gámaplani auk lagningar 311 m langs vegar að svæðinu.

Einnig er innifalið í verkinu uppsteypa á rampi til frálags sorps. Gámasvæðiði verður staðsett í iðnaðarhverfi við Suðurgötu sunnan þjóðvegarins í Árnesi.

Tvö tilboð bárust í verkið. Nesey ehf. bauð 14,0 milljónir króna en Gröfutækni ehf á Flúðum bauð rúmlega 18,1 milljón króna. Kostnaðaráætlun verksins nam rúmum 16,4 milljónum króna þannig að tilboð Neseyjar er 85,2% af kostnaðaráætlun.

Verkinu á að vera lokið fyrir 1. desember næstkomandi.

Fyrri greinSigríður Anna setti fjögur HSK met
Næsta greinLand Roverinn fundinn – sást í nýrri vefmyndavél við Selfoss