Nemendur sýndu kennurum óvæntan stuðning

Nemendum Menntaskólans að Laugarvatni tókst heldur betur að koma kennurum sínum í opna skjöldu í morgun þegar þeir mættu í tíma íklæddir svörtum bolum sem á stóð að framan: VÉR MÓTMÆLUM ALLIR, og að aftan: LEIÐRÉTTUM LAUN KENNARA. BÆTUM MENNTAKERFIÐ. VIÐ ERUM FRAMTÍÐIN.

Það var Nemendafélagið Mímir sem stóð fyrir þessu en nemendur hafa áhyggjur af því sem gerast kann í kjarabráttu kennara á næstu vikum og mánuðum og kröfunni um að laun kennara fái að endurspegla mikilvægi starfs þeirra.

Að sögn mátti sjá tár á hvarmi sumra kennara þegar þeir litu augum þennan táknræna gjörning nemenda sinna.

Á heimasíðu ML segir að kennarar séu í þeirri sérstöku aðstöðu í kjarabaráttu sinni, að aðgerðir þeirra til að bæta kjör sín bitna helst á þeim sem lítið fá að gert.

Eðlilega hafa nemendur áhyggjur af því hvernig málin þróast og óttast að þeim muni ekki auðnast að ljúka námi sínu á þessu skólaári eins og stefnt er að. Þeir gera sér hins vegar grein fyrir því, að þau kjör sem kennarar búa við skipta miklu máli, ekki bara fyrir kennarana sjálfa, heldur menntakerfið í heild sinni.