Nemendur og kennarar BES í úrvinnslusóttkví

Mynd úr safni. Ljósmynd/AS

Allir nemendur og starfsmenn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa verið sendir í úrvinnslusóttkví.

Í morgun bárust upplýsingar um að starfsmaður skólans hafði haft samskipti við smitaðan einstakling í gær. Viðkomandi starfsmaður er kominn í sóttkví og fer í skimun í dag. Í samráði við svæðislækni sóttvarna og sviðsstjóra fjölskyldusviðs var sú ákvörðun tekin í morgun í þessu að senda nemendur og starfsmenn skólans heim í úrvinnslusóttkví á meðan beðið er niðurstöðu úr skimunum.

Ef starfsmaðurinn reynist jákvæður mun rakningateymið gefa upplýsingar um hverjir fara í sóttkví í skólanum.

Ef hann er neikvæður, er úrvinnslusóttkví lokið en allir í skólanum ættu að vera í smitgát sem þýðir að hugsa sérlega vel að persónubundnum sóttvörnum, handþvotti, sprittun,  fylgja nándarreglu ítarlega og forðast samneyti við hópa, viðkvæma og aldraða.