Nemendur fá skólagjöld endurgreidd

Nemendur í Tónlistarskóla Árnesinga munu fá endurgreidd skólagjöld fyrir þann tíma sem verkfall tónlistarskólakennara stóð yfir.

Ekki er svigrúm innan skólaársins til að bæta upp tapaða kennslu en kennsla hófst aftur í gær, strax eftir að samið hafði verið.

Fagráð tónlistarskólans fundaði í morgun og var þar samþykkt tillaga frá stjórnendum skólans um að endurgreiða skólagjöldin, en verkfall tónlistarkennara stóð í fimm vikur. Útreikningur er nokkuð flókinn og má búast við að það dragist fram í desember að endurgreiða gjöldin.

Í fundargerð fagráðsins kemur fram að fimm til sex nemendur hafi ákveðið að hætta námi eftir verkfall.

Líklegt er að verkfallið muni hafa einhver áhrif á stigspróftöku, ekki síst hjá nemendum sem eru lengra komnir.

Skóladagatal skólans hefur eðlilega farið úr skorðum og verða deildartónleikar sem áttu að vera í nóvember færðir fram í febrúar, einnig er gert ráð fyrir einhverri hliðrun á próftíma.

Fyrri greinSjö á sjúkrahús í tveimur hörðum árekstrum
Næsta greinHamar fann ekki körfuna í lokin