Nemendur Þjórsárskóla Varðliðar umhverfisins

Í dag voru nemendur í umhverfisnefnd Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi útnefndir Varðliðar umhverfisins fyrir útgáfu ruslabæklings fyrir börn á öllum aldri.

Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur um umhverfismál. Keppninni er ætlað að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismálum og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðanna um umhverfismál.

Umhverfisnefnd fékk verðlaunin fyrir bækling um flokkun sorps í sveitarfélaginu sem nú verður dreift á hvert heimili innan skamms. Markmið nemendanna með verkefninu er að leggja sitt af mörkum til að auka og stuðla að skilningi á breyttu fyrirkomulagi sorphirðu í sveitarfélaginu sem ætlað er að auka endurvinnslu úrgangs.

Hópurinn ásamt verkefnastjóra tóku á móti viðurkenningu í þjóðmenningarhúsinu við hátíðlega athöfn í dag.

Fyrri greinNíu umsóknir um stöðu skólastjóra
Næsta greinKosið aftur í fyrri hluta júlí