Nemandi í BES á Stokkseyri smitaður

BES á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nemandi á yngra stigi í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur greinst með COVID-19. Öll börn í 1.-6. bekk skólans eru komin í sóttkví til og með þriðjudagsins 27. apríl.

„Þetta eru um 90 nemendur sem eru komnir í sóttkví og á þriðja tug starfsmanna. Yngra stigið okkar er í skólanum á Stokkseyri en unglingastigið í skólanum á Eyrarbakka og þar verður starfsemin óbreytt á morgun,“ sagði Páll Sveinsson, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Nemandinn var síðast í skólanum þriðjudaginn 20. apríl en var ekki greindur með COVID-19 fyrr en í gær. Það þýðir að öll börn í 1.-6. bekk og á þriðja tug starfsmanna BES á Stokkseyri eiga að fara í sóttkví frá og með deginum í dag til og með 27. apríl þar sem þau voru útsett fyrir smiti.

Skólastarf á yngra stigi skólans fellur niður mánudag og þriðjudag. Nemendur á yngra stigi fara í sýnatöku þriðjudaginn 27. apríl og geta mætt í skólann daginn eftir ef neikvæð niðurstaða liggur fyrir.

UPPFÆRT KL. 23:33

Fyrri greinBaldur sá við gömlu félögunum
Næsta greinHópsmit í Þorlákshöfn