Neituðu framlagi Húsafriðunarnefndar

Seljavallalaug. Mynd úr safni.

Framkvæmdir áhugahóps um viðhald og varðveislu Seljavallalaugar undir Eyjafjöllum liggja niðri eftir að forsvarsmönnum hópsins var tjáð að ekki þyrfti lengur aðstoð brottfluttra við framkvæmdir við laugina.

Hópurinn, sem Páll Andrésson, brottfluttur Eyfellingur, er í forsvari fyrir, hafði komið að viðhaldi og uppbyggingu Seljavallalaugar frá árinu 1994. Hafði Páll forgöngu um að útvega fjármuni, vinnuafl og efni til að sinna viðhaldi á lauginni.

Laugin er í eigu Umf. Eyfellings og vissi stjórn félagsins af framkvæmdum hópsins og gerði ekki athugasemdir um árabil.

Í vor hafði Páll Andrésson útvegað 200 þúsund krónur frá Húsafriðunarnefnd en þegar hann hafði samband við gjaldkera félagsins sem átti að taka á móti peningunum var Páli tjáð að ungmennafélagið þyrfti ekki á hans hjálp að halda. Ungmennafélagið myndi sjá um framkvæmdirnar og þar við situr.

Úr varð að Páll afþakkaði fjármunina, vinnuna og efnið og er hættur sínu starfi við laugina.

Eftir því sem næst verður komist kom ágreiningurinn í vor upp þar sem heimamönnum þótti umgengni hópsins við framkvæmdir í búningsklefum í fyrrasumar slæm.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.