Neita Þingvallagjaldi á ferðaþjónustu eina

Ekki er samstaða milli Þingvallanefndar og ferðaþjónustufyrirtækja um gjaldtöku fyrir þjónustu sem þjóðgarðurinn veitir á Hakinu ofan við Almannagjá.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). „Okkur þykir það heldur bratt hjá þjóðgarðsverði að segja að allir hafi tekið þessu vel,” segir Erna um þau ummæli Ólafs Arnar Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, að allir hafi tekið vel í hugmyndir um gjaldtöku á Hakinu.

„Það er alveg ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir á því hvernig eigi að fjármagna þessa uppbyggingu,” segir Erna. „Ef selja á einhverja svona þjónustu þá eru allir í ferðaþjónustunni sammála um að mjög mikilvægt sé að allir þurfi að greiða. Það þarf líka að vanda sig vel. Það þýðir ekki að setja gjöld á ferðaþjónustuna fyrirvaralítið.”

Ekki liggur fyrir formlega af hálfu Þingvallanefndar hverjir eigi að greiða fyrir afnot af þjónustunni á Hakinu. Þjóðgarðsvörður segir málið enn í skoðun en benti á það í Fréttablaðinu í gær að sérstaklega væri horft til atvinnufyrirtækja.

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður Framsóknarflokks, sem situr í Þingvallanefnd er afdráttarlausari. Almenningur þurfi ekki að greiða. Annað gildi þegar um sé að ræða skipulagðar ferðir í því augnamiði að skapa tekjur.

„Þeir sem eru þarna bara í sínum sunnudagsbíltúr hafa eðlilegan aðgang en þeir sem gera út á þetta fyrir arðsemi þurfa að gera þjónustusamning,” útskýrir Sigurður Ingi.

Erna segir hins vegar ekki ganga upp að benda eingöngu á atvinnureksturinn varðandi gjaldtökuna. „Við myndum ekki sætta okkur við það eins og sums staðar hefur verið raunin að það er verið að rukka eingöngu þá sem eru í rútum. Það er auðveldara en að eltast við hina en það er mjög mikilvægt að þetta sé lágt gjald á alla – ef á annað borð er verið að leggja það á,” segir framkvæmdastjóri SAF.

Á vegum iðnaðarráðuneytisins er nú unnið að frumvarpi um gjald sem renna á í sjóð til að kosta aðstöðu við fjölsótta ferðamannastaði á borð við Gullfoss og Geysi. Ætlunin var að leggja á svokallað gistináttagjald til að fjármagna sjóðinn en það mætti feykilegri andstöðu. Annar möguleiki er að leggja gjald á alla sem koma til og frá landinu en því fyrirkomulagi eru sömuleiðis margir andvígir.