Neitaði að hafa ekið bílnum

Maðurinn sem handtekinn var í Hveragerði aðfaranótt laugardags, grunaður um að hafa ekið ölvaður á kyrrstæðan bíl, gaf þá skýringu að bíl sínum hefði verið stolið.

Klukkan 3:14 aðfaranótt laugardags barst lögreglu tilkynning um að ekið hefði verið á kyrrstæða og mannlausa bifreið við Laufskóga 31 í Hveragerði. Áreksturinn var það harður að kyrrstæða bifreiðin kastaðist inn í garð.

Þegar að var komið var ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á kyrrstæðu bifreiðina á bak og burt. Lögreglumenn höfðu nokkru síðar upp á umráðamanni bifreiðarinnar og reyndist hann ölvaður á heimili sínu í Hveragerði. Hann var handtekinn og yfirheyrður og látinn laus að yfirheyrslu lokinni.

Maðurinn neitaði að hafa verið á bifreiðinni og gaf þá skýringu að bifreiðinni hafi verið stolið.

Lögreglan biður þá sem veitt geta upplýsingar um áreksturinn eða um akstur grárrar Alfa Romeo fólksbifreiðar um Laufskóga eða annars staðar í Hveragerði á þessum tíma að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.