Neisti frá pylsugrilli hljóp í gróður

Slökkviliðið í Hellisskógi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kallað út á útivistarsvæðið í Hellisskógi eftir hádegið í dag þar sem eldur hafði kviknað í gróðri.

„Það voru nokkrir ungir menn þarna í kringum fjórtán ára aldurinn sem voru að grilla pylsur og það hljóp óvart neisti í gróður. Það varð dálítill eldur en hann náði sem betur fer ekki að breiðast mikið út og varðstjóri og fyrstu menn á vettvang voru fljótir að slökkva í þessu,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is en útkallið barst klukkan 13:18.

„Gróðurinn er mjög þurr þessa dagana og ekki útlit fyrir neina úrkomu þannig að það er ástæða til þess að brýna fyrir fólki að fara varlega með eld,“ segir Pétur.

Eldur í Fjallinu eina
Þetta var ekki eina útkall dagsins því klukkan 7:10 í morgun barst tilkynning um gróðureld í Fjallinu eina á Selfossi en það tók skamma stund að slökkva hann. Þetta er annað útkallið á einni viku þar sem eldur kviknar í gróðri þar.

Þá hafa fimm slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu verið við slökkvistörf á Reykjanesi í dag þar sem gróður brennur við eldstöðvarnar norðan Grindavíkur. Annar hópur frá BÁ mun fara þangað á morgun ef ekki næst að slökkva fyrr.

Fyrri greinLúðrasveit Þorlákshafnar er Suðurlandsgersemi
Næsta greinMeðaltalsfasteignamat þriðja hæst á Suðurlandi