„Náum að koma mjög miklu af fatnaði inn í hringrásarhagkerfið“

Nú á haustdögum var fataskiptislá komið upp í Fjölheimum á Selfossi og hafa viðtökurnar við henni verið frábærar.

„Sem verkefnastjóri Umhverfis Suðurland þá er ég endalaust að upphugsa sniðugar leiðir til þess að koma umhverfismálunum að. Og þá er oft best að byrja „heima hjá sér“,“ segir Ingunn Jónsdóttir í samtali við sunnlenska.is.

„Við í starfmannafélagi Fjölheima höfum haldið fataskiptimarkað sem var ofsalega skemmtilegt og fullt af fólki nýtti sér það, til þess bæði að gefa og þiggja föt. En það var full fyrirferðarmikið að halda þessum skiptimarkaði úti til langs tíma enda mikið af fötum sem barst. Við sáum því fyrir okkur að ef við settum bara upp eina pena fataslá gæti hún verið uppi allt árið og allir sem ættu leið hjá gætu bætt á hana eða tekið af,“ segir Ingunn.

Hvetur aðrar stofnanir til að vera með
Ingunn segir að þau hafi jafnframt séð fyrir sér að aðrar stofnanir gætu gert það sama og sett upp samskonar fataslá fyrir gesti og gangandi. „Með þessu náum við að koma mjög miklu af fatnaði inn í hringrásarhagkerfið.“

Aðspurð hvernig þetta gangi fyrir sig segir Ingunn að það eina sem þurfi er fataslá og góður vilji. „Hjá okkur leggjum við áherslu á að fötin séu heil og eitthvað sem við ímyndum okkur að einhver myndi vilja nota, þó maður sé hættur því sjálfur. Þetta eru mikið yfirhafnir, skyrtur, peysur og slíkt en auðvitað er engin regla.“

Mikil endurnýjun á slánni
Ingunn segir að viðtökurnar við fataskiptislánni hafi verið frábærar. „Það er alltaf ágætis straumur af fólki hér í Fjölheimum, nemendur og aðrir gestir og þetta vekur athygli. Það sem fór á slánna í upphafi er flest farið og nýtt komið í staðinn, og þá er þetta að virka eins og til var ætlast.“

„Óskin er sú að fleiri fyrirtæki og stofnanir taki þetta upp og til þess að það gæti orðið ákváðum við að koma af stað smá áskorendakeðju sem við vonum að verði vel tekið,“ segir Ingunn.

„Fjölheimar eru opnir alla virka daga milli kl. 8 og 16 og hvetjum við alla áhugasama til þess að kynna sér verkefnið. Einnig er velkomið að hafa samband við mig ef fólk vill aðstoð við að koma þessu af stað á sínum vinnustað,“ segir Ingunn að lokum.

Áhugasamir umhverfissinnar geta sent póst á Ingunni á ingunn@hfsu.is.

Fyrri greinLeikskóladeildum á Selfossi fjölgar
Næsta greinÞefskyn lögreglumanna leiddi til kannabisfundar