Nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög nái sátt um tekjustofnaskiptingu

Hornafjörður. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum í gær að leggja sitt af mörkum til að liðka fyrir sátt á vinnumarkaði og gerir sér grein fyrir því að barátta við verðbólgu og fyrir lægri vöxtum er verkefni sem krefst samvinnu á milli allra aðila.

Bæjarstjórn samþykkir að fella niður gjaldtöku fyrir skólamáltíðir í grunnskólum sveitarfélagsins á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með og kynnt fyrir samningsaðilum. Einnig samþykkir bæjarstjórn að endurskoða gjaldskrár sveitarfélagsins á sama grunni.

Í yfirlýsingu vegna þessa kallar bæjarstjórn eftir skýrri aðgerðaráætlun og tryggingu frá ríkinu fyrir því að þessar aðgerðir verði ekki til þess fallnar í framtíðinni að velta enn frekar verkefnum yfir á sveitarfélögin.

„Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög nái sátt um tekjustofnaskiptingu þeirra á milli og skapi með því traust og fyrirsjáanleika í fjármálum sveitarfélaga eins og hægt er,“ segir í yfirlýsingu Hornfirðinga.

Fyrri greinGóð heylykt er alltaf í uppáhaldi
Næsta grein„Hann á stóran stað í hjarta okkar“