Nauðlending við Þúfu tókst giftusamlega

Rétt fyrir kl. 18 í gær nauðlenti tveggja manna einshreyfils flugvél, háþekja, í mýrlendi austan við Þúfu í Ölfusi. Tveir voru í vélinni og sluppu þeir ómeiddir.

Flugmaður og farþegi hlutu engan skaða af og flugvélin mun ekki hafa skemmst í lendingu.

Flugmaðurinn var á leið frá Múlakoti til Reykjavíkur. Þegar vélin var komin vestur fyrir Selfoss mun hafa brotnað af enda skrúfublaðsins með þeim afleiðingum að vélin fór að titra mikið.

Flugmaðurinn stöðvaði mótorinn og undirbjó nauðlendingu sem tókst giftusamlega.

Rannsóknarmenn frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa komu á vettvang til rannsóknar á atvikinu.

Fyrri greinHelga kaupir Lifandi hús
Næsta greinSlátrun hefst 20. ágúst