Nauðsynlegt að efla vatnsbúskapinn

Nauðsynlegt er talið að efla vatnsbúskap Sveitarfélagsins Árborgar en þrjú síðustu sumur hafa verið þurr og reynt mjög á vatnsöflun bæjarins.

Tækni- og veitustjóri Árborgar hefur fengið fjármagn til borunar rannsóknarholu undir hlíðum Ingólfsfjalls. Er miðað við að borun hefjist innan skamms og verður leitað að vatnsleiðandi sprungum í berginu sem síðar gætu nýst fyrir vinnsluholur.

Að sögn Jóns Tryggva Guðmundssonar, tækni- og veitustjóra, er nauðsynlegt að bregðast við ástandinu sem fyrst en svæðið sem verður skoðað er hluti af núverandi vatnstökusvæði Árborgar.

,,Þróun íbúafjöldans ræður mestu um vatnsþörfina en við teljum nauðsynlegt að hefja aðgerðir sem fyrst,” sagði Tryggvi. Hann sagði of snemmt að segja til um endanlegan kostnað við stækkunina.