Náms- og kennsluver opnað á Hellu

Á dögunum var tekið í notkun nýtt náms- og kennsluver á Hellu. Það er til húsa í Miðjunni þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru m.a. til húsa, en gengið er inn að norðanverðu.

Um er að ræða samstarfsverkefni sveitarfélagsins Rangárþings ytra, Háskólafélagsins og Fræðslunetsins. Sveitarfélagið leggur til húsnæði og sér um rekstur þess en félögin tvö lögðu til húsbúnað. Aðstaðan er hin ákjósanlegasta með aðgangi að vel búinni kaffistofu.

Við opnunina kom fram að nú eru sem dæmi átta fjarnemendur í póstnúmerum 850 og 851 skráðir til náms við Háskólann á Akureyri. Þessi aðstaða kemur því þessum fjarnemendum vel og mun eflaust örva aðra til dáða. Á opnunni sóttu sjö einstaklingar um aðgang að námsverinu og munu eflaust fleiri nýta sér það í vetur.

Þá var einnig gerð grein fyrir fjölbreyttu námsframboði Fræðslunetsins og nýrri námsleið Háskólafélagsins fyrir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi.

Fyrri greinFjórar efnilegar í leikmannahóp Selfoss
Næsta greinFannst meðvitundarskertur í Raufarhólshelli