Nammibræður slá í gegn

Stefán Karl og Elvar Atli eru Nammibræður. Ljósmynd/Karitas Ottesen

Vinirnir Elvar Atli Guðmundsson og Stefán Karl Sverrisson, nýfermdir Selfyssingar, ætla ekki að láta sér leiðast í sumar.

Þeir stofnuðu nýverið fyrirtækið Nammibræður og mæta þeir í veislur og á aðra viðburði og búa til candyfloss. Hefur fyrirtækið strax fengið mikil og góð viðbrögð hjá fólki og þá ekki síst fyrir það hversu sjarmerandi og kurteisir strákarnir eru.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti strákana heima hjá Elvari Atla og voru þeir vinirnir mjög peppaðir fyrir komandi sumri. Þeir hafa nú þegar farið í eina fermingarveislu og á eina fimleikahátíð og pantanirnar eru byrjaðar að streyma inn fyrir næstu gigg.

„Á 17. júní í fyrra sá pabbi hans Stebba candyflossvél sem var verið að selja og honum datt í hug hvort við vildum byrja á einhverju svona – að selja candyfloss. Svo reyndar keyptum við líka poppvél,“ segir Elvar Atli. Þess má geta að faðir Stefáns Karls er Sverrir Rúnarsson, eigandi ísbúðarinnar Huppu og veit því sitthvað um fyrirtækjarekstur.

Stefán Karl bætir því við að upphaflega hafi planið verið að selja bara candyfloss á 17. júní en eins og fyrr segir hefur fyrirtækið þegar tekið til starfa.

„Þetta er búið að ganga mjög vel. Fyrstu skiptin eru aðallega til að auglýsa okkur og láta fólk vita af okkur. Eftir fimleikahátíðina í gær þá voru alveg þrír sem höfðu áhuga á að fá okkur á aðra viðburði,“ segir Elvar Atli.

Nammibræðurnir Elvar Atli og Stefán Karl eru tilbúnir fyrir sumarið. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Slá garða samhliða því að selja candyfloss
Aðspurðir segja vinirnir að þetta sé mjög skemmtilegt. „Þetta er mjög gaman – skemmtilegra að við áttum von á. Svo fær maður alltaf að borða smá candyfloss líka,“ segir Elvar Atli og þeir hlæja báðir.

Vinirnir eiga von á því að það verði nóg að gera í candyflossinu í sumar en þeir munu einnig slá garða en bróðir Elvars Atla, Böðvar Thor, er með garðsláttufyrirtæki, svo að það má með sanni segja að dugnaður og útsjónarsemi sé í fjölskyldum þeirra beggja.

Eru bara rétt að byrja
Nafnið Nammibræður varð til eftir þó nokkrar pælingar og var það móðir Stefáns Karls sem hjálpaði þeim með lógóið og nafnið. „Styttingin á Nammibræður er NB partýleigan og þó að það standi candyfloss fyrir ofan lógóið þá heitum við samt ekki candyfloss enda stendur til að selja eitthvað fleira en bara í candyfloss í framtíðinni,“ segir Stefán Karl.

Strákarnir segja að þeir hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólkinu í kringum sig. „Mamma og pabbi eru mjög sátt með þetta,“ segir Elvar Atli og Stefán Karl tekur í sama streng og segja þeir að þeir hafi fullan stuðning frá sínum fjölskyldum.

Allt í lagi ef maður tapar
Nammibræður taka að sér hvaða partý sem er á Árborgarsvæðinu – hvort sem það er barnaafmæli, fótboltaleikur eða eitthvað annað. „Það gæti alveg verið að við þurfum að ráða starfsfólk – kaupa jafnvel aðra candyflossvél,“ segir Stefán Karl. „Allan peninginn sem við fáum út úr þessu setjum við á ákveðinn reikning og við notum þann pening til að kaupa meira dót, meiri sykur og safna fyrir annarri candyflossvél,“ segir Elvar Atli.

En hvaða skilaboð skyldu þeir vinirnir vera með til krakka á sama aldri sem langar til að gera eitthvað sniðugt í sumar. „Bara prófa – það er allt í lagi ef maður tapar,“ segir Stefán Karl. „Þegar maður er þrettán ára og reynir að byggja upp fyrirtæki, sama þó að það virki ekki, þá er það aldrei að fara að eyðileggja neitt af því að þú ert með mat og húsnæði,“ segir Elvar Atli að lokum.

Instagramsíða Nammibræðra

Facebooksíða Nammibræðra

Fyrri greinÞrjú rauð á loft á Selfossvelli
Næsta greinVel heppnaður ársfundur Landbúnaðarháskóla Íslands