Nágrannarnir skiluðu inn mótmælum

Rúmlega 130 íbúar í nágrenni Sunnulækjarskóla skrifuðu undir lista þar sem ákvörðun bæjarráðs um að leyfa tjaldsvæði við skólann á Kótelettuhátíðinni í júní er mótmælt.

Guðjón Smári Guðjónsson, einn íbúanna, segir að undirskriftasöfnunin hafi gengið mjög vel miðað við það að hún var gerð á tveimur dögum um síðustu helgi og margir íbúanna ekki heima. Mikil andstaða sé við þessa ákvörðun í hverfinu en íbúarnir telja það ekki passa að opna tjaldsvæði inni í miðju íbúðahverfi á hátíð sem þessari.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, tók við mótmælalistunum og sagði að þeir yrðu lagðir fyrir bæjarráð sem fjalla mun um málið á fundi sínum á fimmtudag.

Tengdar fréttir:
Íbúar í hverfinu mjög ósáttir
Leyft að tjalda við Sunnulækjarskóla