Nagað birki á Almenningum

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir ljóst að sauðfjárbeit á Almenningum skaði birkitré og hamli framvindu og útbreiðslu birkiskóga.

Þetta sjái hvert mannsbarn eftir stutta gönguferð um beitilönd á Almenningum. Sums staðar er birkið uppnagað og mun með áframhaldandi beit eyðast.

Hreinn segir í grein á heimasíðu Skógræktarinnar að mest sé þetta áberandi þar sem tilbúinn áburður hafði verið borinn á land. Almennt sjái lítið á eldri skógi nema að neðstu greinar hafi verið nagaðar upp. Þó megi einnig finna töluvert af uppnöguðum trjám utan áburðarsvæða. Lítið fannst af smáplöntum af sjálfsánu birki, þ.e. 5-10 cm, og er ekki ljóst hvort þær hafa að mestu verið uppnagaðar eða hvort lítil sjálfsáning hefur átt sér stað síðustu árin.

Fé hefur farið víða um svæðið í sumar, segir Hreinn, og eitthvað slæðst yfir á Þórsmörk. Féð heldur sig mest í uppgræðslusvæðum og landi sem er lítt gróið þar sem það étur nýgræðing. Birki hefur á síðustu 20 árum breiðst út mjög víða um Almenninga og má sjá stök tré upp fyrir 400 m hæð yfir sjó inn til dala. Hreinn segir ljóst að áframhaldandi friðun í 1-2 áratugi myndi stuðla að mikilli útbreiðslu birkis á Almenningum. Með þessu gæti landið staðist betur áföll vegna öskufalls úr eldfjöllum og raunar öll jarðvegseyðandi öfl.

„Það verður að segjast bændum til hróss að þeir hafa staðið sig vel við uppgræðslu á afmörkuðum svæðum innan Almenninga,“ segir Hreinn.

Fyrri greinSafna fimm tonnum af melgresisfræi
Næsta greinSelfyssingar töpuðu á Ísafirði