N1 svarar ákalli um 98 oktana bensín

N1 á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

N1 á Selfossi hefur nú bæst við þann hóp stöðva N1 sem selur 98 oktana bensín. Um er að ræða einu stöðina á Suðurlandi sem selur 98 oktana bensín.

Allt frá því að ný reglugerð um etanól íblöndun í bensíni tók gildi hefur eftirspurnin eftir 98 oktana bensíni aukist og er það markmið N1 að mæta þessari auknu eftirspurn um land allt. N1 selur 98 oktana bensín víða á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ, á Akureyri, á Egilsstöðum og nú á Selfossi.

Ekki bara fyrir eldri bíla
„Við höfum heyrt frá okkar viðskiptavinum á Selfossi, og víða á Suðurlandi, að það sé þörf fyrir 98 oktana bensín á Selfossi og því kalli erum við að svara,“ segir Ýmir Örn Finnbogason framkvæmdastjóri N1.

Ýmir Örn bætir við að það séu ekki aðeins eldri bílar sem mögulega þurfa að skipta úr 95 oktana bensíni yfir í 98 oktana, heldur eru þetta ýmis tæki sem þurfa mögulega að fá nýja tegund eldsneytis nú þegar þessar breytingarnar hafa átt sér stað. Bendir hann á að eigendur mótorhjóla, utanborðsmótora, sláttuvéla, sláttuorfa og slíkra tækja ættu að kynna sér vel hvaða eldsneyti er óhætt að nota á tækin.

„Allir bensínknúnir bílar árgerð 2011 eða yngri geti tekið nýja E10 eldsneytið ásamt flestum eldri tækjum. Ég hveta alla þá sem eigi eldri bíla eða tæki en árgerð 2011 að kanna sjálfir hvort þeirra tæki megi taka E10 eldsneyti, t.d. hjá umboði viðkomandi tækis,“ segir Ýmir að ennfremur.

Bagalegt að vísa fólki til Reykjavíkur
Þórarinn Birgisson stöðvarstjóri N1 á Selfossi og í Hveragerði fagnar því mjög að geta sinnt þessari eftirspurn á sínu svæði.

„Ég er bara spenntur að fá þessa nýjung á dælurnar okkar hérna á Selfossi og taka á móti öllum þeim fjölmörgu sem hafa verið að kalla eftir þessari tegund eldsneytis hingað, bæði Selfyssinga og nærsveitunga,“ segir Þórarinn Birgisson stöðvarstjóri N1 á Selfossi og í Hveragerði. Þórarinn segir það auðvitað hafa verið bagalegt að þurfa að vísa öllum þeim fjölmörgu sem hafa þurft að kaupa 98 oktana bensín yfir til Reykjavíkur.

Fyrri greinJólatónlistarveisla í notalegu umhverfi
Næsta greinÖnnur gul viðvörun