Næst besta veiðisumarið að baki

Mikil og góð veiði hefur verið í Þjórsá þetta sumarið en alls hafa um 8.000 fiskar komið á land. Það er tvöföldun frá síðasta ári og næst besta veiðisumarið í ánni.

Að sögn Einars Haraldssonar, bónda á Urriðafossi, hefur fiskurinn verið fallegur og góður og selst vel. Einar segist vera hættur veiði þetta árið.

En hvaða skýringar skyldi hann hafa á þeim miklu breytingum sem verða milli ára en síðasta ár var „ördeyða” eins og Einar kallaði það?

„Ég er ansi smeykur um að það sé makríllinn sem er að valda þessu,” sagði Einar en breytingar á göngu makrílsins eru mestu breytingarnar sem orðið hafa á lífríki sjávarins. Einar sagði að vísindalegar rannsóknir skorti til að renna stoðum undir þessar fullyrðingar.

Sumarið 2012 var met slegið í veiði í Þjórsá en þá komu 9.000 fiskar á land. Mest hafði veiðst fram að því 5.500 fiskar árið 1978. Að jafnaði veiddust um 3 til 4.000 fiskar á ári. Einar sagði að mikil fiskgengd fyrir ofan fossinn Búða yki mönnum bjartsýni um að uppeldisstöðvarnar væru að stækka sem gæfi vísbendingar um aukna veiði í framtíðinni.

Fyrri greinKynnisferð upp á hálendið
Næsta greinÚtlendingar sjá sjarmann í veðrinu