„Næsti bær við Los Angeles“

„Þetta er geggjað,“ segir Brúsi Ólason frá Litlu-Sandvík í Sandvíkurhreppi.

Stuttmynd Brúsa, Sjáumst eða See Ya eins og hún nefnist á ensku, var nýverið valin til að taka þátt í alþjóðlegu suttmyndahátíðinni í Palm Springs, í Kaliforníu í Bandaríkjunum en hátíðin er haldin 20.-26. júní næstkomandi.

Sjáumst var tekin upp á Selfossi og í Litlu-Sandvík síðastliðið sumar og segir frá síðasta dag fótboltastráks á Selfossi áður en hann flytur út í atvinnumennsku.

„Það komast rúmlega 300 myndir inn á þessa hátíð svo það verður fullt af kvikmyndagerðarfólki. Svo er þetta náttúrulega bara næsti bær við Los Angeles þannig það verður eitthvað af fólki í kvikmyndaiðnaðinum þar á hátíðinni. Þetta verður ótrúlega gaman held ég,“ segir Brúsi en hann leggur stund á leikstjórn og handritaskrif í Columbia háskólanum í New York í Bandaríkjunum.

Aðspurður hvað það þýði fyrir myndina að komast inn á hátíð sem þessa segir Brúsi að hann viti það í raun og veru ekki. „Þetta er auðvitað mikill heiður fyrst og fremst. En ég reikna með því að það verði mikið um fólk frá öðrum hátíðum þarna sem gæti þýtt að Sjáumst komist að á fleiri stöðum. Við sjáum bara til,“ segir Brúsi sem fer á hátíðina ásamt Katrínu Aagestad, aðstoðarleikstjóra myndarinnar.

Brúsi hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nú þegar byrjaður að vinna að næstu stuttmynd. „Við förum í tökur seinni hluta júlí og við erum að velja leikara og finna tökustað og svoleiðis. Gengur bara ljómandi vel. Ég er mjög spenntur fyrir því að skjóta hana og vinna með öllu þessu frábæra fólki sem ég er að koma saman,“ segir Brúsi að lokum.

Facebooksíða Sjáumst.

Fyrri greinEldur í rafmagnstöflu á Kvöldstjörnunni
Næsta greinDaníel tryggði Árborg jafntefli