Nær ófært inn í Þórsmörk

Markarfljót rauf Þórsmerkurveg á kafla í morgun en Vegagerðin hefur sent tæki á staðinn til að laga veginn og varnargarða.

Varnargarður sem Vegagerðin setti upp í fyrra hefur nú gefið sig og rennur áin eftir veginum á um 100 metra kafla. Að sögn Ragnheiðar Hauksdóttur, landvarðar í Húsadal, er aska í ánnum á svæðinu og myndar hún leðju sem gerir árnar óútreiknanlegar.

Lögreglan á Hvolsvelli er á leið inn í Þórsmörk til þess að meta aðstæður. Varað er við ferðum inn í Þórsmörk þar til lagfæringu er lokið en vegurinn er hættulegur þeim sem ekki eru vanir akstri í ófærum.