Mýrdalsjökull skelfur – Sterk fýla af jökulánum

Síðustu vikuna hefur jörð skolfið undir Mýrdalsjökli en frá því á sunnudag hafa um sextíu skjálftar mælst í jöklinum. Sá stærsti var 3,0 í morgun.

Stærsti skjálftinn varð klukkan 9:18 í morgun, af stærðinni 3,0 en upptök hans voru 4,8 km norður af Hábungu. Frá því á sunnudag hafa átta aðrir skjálftar mælst 2,1 eða stærri.

Upptök skjálftanna hafa aðallega verið austarlega í Kötluöskjunni og þeir hafa allir verið á grunnu dýpi.

Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands segir líklegast að skjálftarnir tengist jarðhitavirkni undir öskjunni.

“Alla jafna er mest skjálftavirkni undir Kötluöskjunni í júlímánuði. Aukin rafleiðni hefur mælst bæði í Múlakvísl og í Jökulsá á Sólheimasandi síðustu daga sem bendir til jarðhitavatns,” sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is og bætti við að sterk brennisteinsfýla hafi fundist undanfarið við báðar árnar og aukið vatnsrennsli hefur verið í Múlakvísl.

“Líklega er því jarðhitavatn að leka úr sigkötlum undir jöklinum,” segir Gunnar en Veðurstofan hefur fylgst vel með þessu ferli undanfarna daga og mun gera það áfram.

UPPFÆRT 16:55:
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli lýst yfir óvissustigi vegna upplýsinga um að hlaupvatn sé komið fram í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Á þessari stundu er það mat vísindamanna Veðurstofunnar að um lítið hlaup sé að ræða.

Ferðafólk er beðið um að fara að öllu með gát á svæðunum í kringum Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl vegna hættu á aukinni brennisteinsvetnismengun.

Fyrri greinSunnlenskir hnappar í útrás
Næsta greinJafnt eftir æsilegar lokamínútur