Mýrdalshreppur og Rarik hefja samstarf um leit að heitu vatni

Óli Þór Jónsson, rekstrarstjóri hitaveitna hjá Rarik og Björn Þór Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar Mýrdalshrepps. Ljósmynd/Aðsend

Í liðinni viku gerðu Mýrdalshreppur og Rarik ohf. með sér samning um heitavatnsleit í nágrenni Víkur í Mýrdal. Samningurinn er liður í samstarfi sveitarfélagsins og Rarik um að kanna möguleika á stofnun hitaveitu til að anna kyndiþörf þéttbýlisins í Vík til lengri tíma.

Rarik á og rekur nú fjórar hitaveitur á dreifisvæði sínu; í Búðardal, á Blönduósi og Skagaströnd, Siglufirði og Höfn í Hornafirði, og býr að áratugalangri reynslu af uppbyggingu og rekstri slíkra veitna.

Í dag eru öll hús í Vík rafkynt og afhendingargeta raforku til svæðisins er takmörkuð. Ný hitaveita myndi draga úr þörf fyrir raforku til húshitunar á svæðinu, auka sveigjanleika og öryggi í raforkudreifingu til Víkur, lækka orkukostnað heimila og fyrirtækja og styrkja aðdráttarafl Víkur fyrir íbúa og atvinnulíf.

Jarðhitaleit undir Hrafnatindum
Í fyrstu verður leitað að heitu vatni ofan þéttbýlisins í Vík, m.a. undir Hrafnatindum. Leitin felur í sér jarðfræðirannsóknir og tilraunaboranir sem áætlað er að hefjist á sumarmánuðum 2026. Vonir standa til að ef leit skilar árangri verði unnt að byggja upp hitaveitu fyrir Vík og nærliggjandi svæði á næstu árum. Slík hitaveita myndi renna öflugum stoðum undir orkuöryggi Mýrdælinga, styðja við orkuskipti, auka lífsgæði íbúa og efla samkeppnishæfni atvinnulífs í Mýrdalshrepp.

„Með þessu samstarfi erum við að taka mikilvægt skref í átt að öruggari, grænni og hagkvæmari orku fyrir íbúa og fyrirtæki í Vík,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

„Jarðhitaleit í Vík fellur vel að stefnu okkar um orkuöryggi, að veita gott aðgengi að endurnýjanlegri orku og styrkja framþróun samfélaga á landsbyggðinni,“ segir Óli Þór Jónsson, rekstrarstjóri hitaveitna hjá Rarik.

Styrkur úr Loftslags- og orkusjóði
Nýverið fengu Mýrdalshreppur og Rarik úthlutað 176 m.kr. styrk úr Loftslags- og orkusjóði til hitaveituleitar á svæðinu. Styrkurinn er kærkomin innspýting í verkefnið og mun nýtast til grunnrannsókna, jarðeðlisfræðilegra mælinga og tilraunaborana.

Loftslags- og orkusjóður styður meðal annars verkefni sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa. Verkefnið í Mýrdalshreppi fellur að þeim markmiðum með því að stuðla að orkuskiptum í kyndingu og bættu orkuöryggi á Suðurlandi.

Hrafnatindar við Vík. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinFrestun á færslu þjóðvegarins gríðarleg vonbrigði
Næsta greinSelfoss vann en Hamar kominn á botninn