Mýrdælingur kemur að stærstu kvikmyndaverkefnum

Fyrirtækið Mýrdælingur ehf. hefur komið að tveimur stórum kvikmyndaverkefnum það sem af er ári en að sögn Gísla D. Reynissonar er lítið um slík verkefni framundan.

Mýrdælingur er frá Vík í Mýrdal og sérhæfir það sig í ýmsum verkefnum meðal annars aðstoð við kvikmyndatökufólk. Mýrdælingur býður upp á sérhæfðan búnað sem nýtist inn á jöklum, svo sem stóra trukka, ferðaeldhús og tankbíla.

Þau verkefni sem Mýrdælingur hefur unnið að í ár eru hollensk mynd um Novaya Zemlya og síðan stórmynd Ridleys Scotts, Prometheus.

Sagði Gísli að talsverð vinna hefði verið vegna hollensku myndarinnar sem var unnin á Langjökli. ,,Annars er það vandinn með stærstu verkefnin að þá koma menn oft með flest tæki sjálfir þannig að minna er fyrir okkur að gera sem erum í þessu hér heima.”

Gísli kemur einnig að gerð auglýsingamynda og er mest að gera í slíkum verkefnum á haustin. Hann sagði að þrátt fyrir veikingu krónunnar hefði verkefnastaðan ekki batnað svo mikið þar sem erlend tryggingafélög hefðu hætt að tryggja verkefni á Íslandi. Til að brúa bilið hefur fyrirtækið gripið í margvísleg smíðaverkefni og sagði Gísli að nóg væri að gera í þeim.

Fyrri greinÖskufok syðst á landinu
Næsta greinÞorláksbúð í smíðum