Mýrdælingur í Lundúnum skrifar bók um heimahagana

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, frá Eyjarhólum í Mýrdal hefur gefið út bókina „Raised by the North“ sem er safn dálka sem hún skrifaði fyrir vefsíðu tímaritsins Iceland Review á árunum 2007-2012.

Þar segir Ingibjörg frá ýmsu sem á daga hennar hefur drifið, ekki síst á uppvaxtarárunum í Mýrdalnum. Tengir hún það við íslenskt samfélag fyrr og nú í þeim tilgangi að reyna að skilja betur hvers vegna við erum eins og við erum, eins og hún orðar það.

„Þetta eru oft mjög persónulegar frásagnir þar sem fjölskyldan mín kemur mikið við sögu og þess vegna er bókin skreytt með nokkrum fjölskyldumyndum,“ segir Ingibjörg.

Bók Ingibjargar er skrifuð á ensku og ætluð ferðamönnum en hentar einnig að hennar sögn sem gjöf handa erlendum vinum og öllum þeim sem hafa áhuga á Íslandi, eru annað hvort að undirbúa ferð hingað eða hafa einhverntíma heimsótt landið.

Ingibjörg útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, en hélt síðan í háskólanám í Reykjavík og lauk meistaragráðu frá HÍ, í bæði ensku, og blaða- og fréttamennsku. Að námi loknu starfaði hún svo bæði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu.

Það var svo í kjölfar þess sem hún flutti til Bretlands, þar sem hún býr nú. Þar er hún lausapenni og hefur lokið við að skrifa sína fyrstu bók um ferðalög. Hún segir slík skrif, sem á ensku kallast travel writing eiga mjög upp á pallborðið um þessar mundir. „Bækur eftir „local authors“ eiga sér sérstakt pláss í litlum bókabúðum víða þar sem ég hef komið. Ég er sérstök áhugamanneskja um bókabúðir og býð t.d. upp á leiðsögn um Lundúnir þar sem skemmtilegar bókabúðir eru skoðaðar,“ segir Ingibjörg.

Hún segist ung hafa byrjað að vinna í bóksölunni í FSu. „En eftir að ég flutti til Bretlands hef ég bæði unnið í svona yndislegri, gamaldags bókabúð í litlum bæ á Suður-Englandi og svo hjá Waterstones, móðurskipinu sjálfu, í Lundúnum,“ segir hún. Auk leiðsagnar um stórborgina býður hún einnig upp á sérstakar dagsferðir út fyrir hana, þar sem ferðalangar geta upplifað enska sveitasælu.

Framundan er svo meiri skrif, en jafnframt stundakennsla við HÍ. En Ingibjörg er stórhuga, eins og sést á því að hún gaf út bókina sjálf, og fékk mágkonu til að taka myndir á kápu og fleira í bókina. Hún segist vera með eigin bókabúð í bígerð í Lundúnum, en fjármagn vanti til að klára þá framkvæmd.

Bók Ingibjargar Rósu, er hægt að fá á flestum helstu ferðamannastöðum í Mýrdalnum og einnig í Eymundsson verslunum í Reykjavík. Einnig geta þeir sem vilja kaupa hana beint hjá Ingibjörgu, pantað sér eintak í gegnum Facebooksíðu, sem sérstaklega hefur verið gerð um bókina.