Myndstef vill að borðinu verði fargað

Myndstef krafðist þess síðasta haust að Fischersetrið fjarlægði stórt skákborð úr sýningarsal setursins á Selfossi. Fischersetrið hefur síðan greitt Myndstef 120 þúsund króna höfundarréttargjald.

Selfyssingurinn Gunnar Finnlaugsson, einn stjórnarmanna Fischersetursins, er eigandi borðsins og hann birti í morgun bréf frá Myndstef á vefnum skak.is.

Þar segir að Páll G. Jónsson, Sverrir Kristinsson og Gunnar Magnússon, arkitekt og höfundur borðsins, hafi leitað til Myndstefs vegna meintrar ólögmætrar eftirgerðar og opinberrar notkunar á skák-einvígisborði sem hannað var og smíðað fyrir einvígi Fischer og Spassky árið 1972 en Gunnar Magnússon er höfundur borðsins.

Myndstef segir að ef ekki hafi fengist leyfi fyrir eftirgerð og birtingu borðsins sé krafan sú að það verði fjarlægt tafarlaust úr sýningarsal setursins og því fargað.

Borðið á Fischersetrinu er smíðað í Svíþjóð og er framleiðandinn Kasper Thulin. Borðið er stimplað með nafni hans. Fyrirmynd borðsins eru myndir af tveimur borðum. Annars vegar borð frá Havana 1966 og hins vegar Reykjavik 1972. Gunnar Finnlaugsson segir að stórmeistarinn Friðrik Ólafsson eigi á borð frá Havana 1966 og að sögn Friðriks kom Gunnar Magnússon til hans til að skoða Havanaborðið í aðdragandi einvígisins 1972.

Samnefnari allra fjögurra borðanna eru púðarnir sem fyrst sáust á borðinu frá Havana 1966. Borð Thulins er frábruðið borðunum Havana 1966 og borði Gunnars Magnússonar bæði hvað varðar stærð og efni.

Magnús Matthíasson, einn stjórnarmanna Fischersetursins, sagði í samtali við sunnlenska.is að borðinu sem var til sýnis á Fischersetrinu svipi til einvígisborðsins 1972. „Gunnar Finnlaugsson lét smíða það árið 2005 og lánar okkur það svo því að við vildum hafa hér fallegt skákborð. Hönnuður borðsins 1972 leitaði réttar síns ásamt öðrum og Myndstef sendi okkur beiðni um að sýna ekki borðið. Við urðum ekki við því strax og þeir sendu þá sekt á okkur og sögðu að málið færi fyrir dómstóla ef við greiddum ekki sektina. Þannig að við greiddum sektina og sýnum borðið ekki lengur,” sagði Magnús í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta eru vissulega mikil vonbrigði vegna þess að við teljum að hér sé ekki um eftirlíkingu af borðinu 1972 að ræða. Auðvitað eru líkindi með öllum skákborðum, það segir sig sjálft. Það eru augljós líkindi með borðinu frá 1972 og borðinu sem notað var í Havana 1966, það er til mikið af ljósmyndum af því borði en hvort við förum í það að færa sönnur á það verður tíminn að leiða í ljós,“ sagði Magnús að lokum.