Myndstef heiðrar Knút

Stjórn Myndstefs heiðraði nýlega á aðalfundi sínum Knút Bruun, hæstaréttarlögmann, frumkvöðul að stofnun samtakanna og einn af brautryðjendunum í höfundarréttarmálum hér á landi.

Við þetta tækifæri var Knútur sæmdur heiðursfélaganafnbót fyrir áralöng störf sín í þágu íslenskra listamanna sem aðild eiga að sjóðnum, en að honum standa félög myndlistarmanna, ljósmyndara, teiknara, leikmynda- og búningahöfunda, arkitekta, hönnuða og ýmissa annarra stofnana og einstaklinga sem fara með höfundarétt myndverka.

Myndstef var stofnað árið 1991 og ári síðar hlaut sjóðurinn lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins til þess að annast hagsmunagæslu fyrir myndhöfunda hér á landi erlendis. Hlutverk sjóðsins er að vernda höfundarrétt félagsmanna vegna opinberrar birtingar á verkum þeirra eða annarrar hliðstæðrar notkunar, stuðla að almennri höfundaréttargæslu, auðvelda almenningi aðgang að verkum höfunda og síðast en ekki síst að semja um sanngjarna þóknun fyrir afnot að verkum þeirra f.h. höfundarins.

Knútur Bruun átti hugmyndina að stofnun samtakanna, hann annaðist stofnun þeirra árið 1991 og rak þau og mótaði í nærri 20 ár. Knútur var fyrsti formaður stjórnar Myndstefs fyrir hönd Félags íslenskra myndlistarmanna, en segja má að hvatinn af stofnun samtakanna hafi verið sú nauðsyn að bregðast við áralangri misnotkun á höfundarrétti sem viðgekkst. Frá því að Myndstef var stofnað hefur orðið mikil bragarbót á höfundarréttarmálum á Íslandi og er það ekki síst að þakka þrotlausri hagsmunagæslu Knúts Bruun fyrir hönd félagsmanna.

Aðild að Myndstefi eiga um 1700 félög og einstaklingar. Hjá Myndstefi eru tveir starfsmenn, en sjóðurinn hefur aldrei verið rekinn í hagnðarskyni.

Stjórn Myndstefs skipa nú Ragnar Th. Sigurðsson, formaður, Áslaug Thorlacius, f.h. Sambands íslenskra myndlistarmanna, Bára Kristinsdóttir f.h. Ljósmyndarafélags Íslands, Högni Valur Högnason f.h. Félags íslenskra teiknara, Kalman le Sage de Fontenay f.h. Félags grafískra teiknara, Stefán Örn Stefánsson f.h. Arkitektafélags Íslands, Þórunn María Jónsdóttir f.h. Félags leikmynda- og búningahöfunda, og Halla Helgadóttir f.h. Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Fyrri greinBókamessa við upphaf Kótelettu
Næsta greinHSK sækir um ULM 2017 og 50+ árið 2016