Myndavélamálið á ReyCup komið á borð lögreglu

Stúlkurnar rannsökuðu sjálfar málið og fundu tölvuskjá á starfsmannasvæði í anddyri Laugardalshallarinnar sem sýndi meðal annars stofuna sem þær dvöldust í á mótinu. Ljósmynd/Aðsend

Kveikt var á eftirlitsmyndavélum í stofum í Laugardalshöllinni sem keppendur í stúlknaliðum Selfoss á knattspyrnumótinu ReyCup gistu í á meðan á mótinu stóð. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu sem hefur hafið rannsókn á því.

Stúlkurnar komust sjálfar á snoðir myndatökuna seint í gærkvöldi, þegar þær fór að gruna að kveikt væri á myndavél í salnum sem þær gistu í. Þrjár þeirra rannsökuðu málið og fóru inn á svæði í höllinni sem aðeins er ætlað starfsmönnum og þar sáu þær stofuna sína á tölvuskjá. Stúlkurnar höfðu þá dvalist í höllinni síðan á miðvikudagskvöld og oft verið fáklæddar eða naktar þar, þegar þær skiptu um föt í stofunni.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu og þar er haft eftir Birgi Bárðarsyni, framkvæmdastjóra Laugardalshallarinnar, að um sé að ræða handvömm hjá keppnishöldurum á ReyCup sem hafi ekki óskað eftir því að eftirlitsmyndavélarnar yrðu teknar úr sambandi á meðan á mótinu stóð.

Birgir segir að ekki sé um faldar myndavélar að ræða, en samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru engar merkingar í húsinu sem segja að svæðin séu vöktuð og Selfossstelpurnar og aðstandendur þeirra höfðu ekki hugmynd um að myndavélar væru í húsinu, hvað þá inni í salnum sem stúlkurnar gistu í.

Stjórn ReyCup og knattspyrnudeild Selfoss sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um málið eftir hádegi í dag. Þar kemur fram að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu, sem hefur þegar hafið rannsókn þess.

„Stjórn ReyCup harmar þessa stöðu sem upp er komin og lýsir fullum stuðningi við þær stúlkur sem þarna gistu. Ekkert bendir til þess að um neinskonar ásetning sé um að ræða, heldur fyrst og fremst athugunarleysi sem er afskaplega miður og vill stjórn mótsins biðjast velvirðingar á því,“ segir í tilkynningunni. Stjórn ReyCup og knattspyrnudeildar Selfoss hafa unnið að því í dag að koma málinu í réttan farveg í samstarfi við lögregluna.

Fyrri greinSvekkjandi tap gegn botnliðinu
Næsta greinGerald Robinson á Selfoss