Myndakostur safnsins aðgengilegur á netinu

Héraðsskjalasafn Árnesinga hefur hafið skráningu og skönnun ljósmyndasafna sem eru í safnkosti þess með það að markmiði að gera myndirnar aðgengilegar á netinu.

Safnið hefur ráðið Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndara til að skanna inn filmur og ljósmyndir auk þess að safna upplýsingum um viðkomandi myndir. Fljótlega verður ráðinn annar starfsmaður til viðbótar til að skrá myndirnar og verða þannig tvö heil stöðugildi á Héraðsskjalasafninu til viðbótar við þá tvo starfsmenn sem fyrir eru.

Héraðsskjalasafn Árnesinga fær fjárveitingar hjá fjárlaganefnd Alþingis til þessa verkefnis auk þess sem Sveitarfélagið Árborg greiðir launatengd gjöld starfsmannanna. Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður, segir safnið hafa sótt um styrk til fjárlaganefndar Alþingis ásamt Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Héraðsskjalasafni Austfirðinga og voru veittar 13,5 milljónir króna til verkefnisins sem deilast niður á söfnin þrjú.

Undirbúningur vegna verkefnisins hefur staðið yfir frá því í nóvember enda eru ríflega 400.000 ljósmyndir, ýmist á pappír, filmum af ýmsum stærðum, skyggnum, glerplötum og stafrænu formi á skjalasöfnunum.