Munu ekki kaupa þjónustu af Árborg

Úrsögn sveitarfélagsins Árborgar úr Skólaskrifstofu Suðurlands var rædd á síðasta fundi hreppsnefndar Hrunamannahrepps. Hreppsnefndin lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Árborgar.

Ragnar Magnússon, oddviti, kynnti bréf frá Árborg um samþykkt sveitarfélagsins um úrsögn úr byggðasamlagi um Skólaskrifstofu Suðurlands og boð um að selja öðrum sveitarfélögum þjónstu á því sviði.

Hreppsnefnd Hrunamannahrepps lýsir yfir miklum vonbrigðum að Árborg hafi valið að fara þessa leið í samstarfi sveitarfélaganna á Suðurlandi.

„Ákvörðun þeirra getur haft víðtæk áhrif fyrir önnur sveitarfélög og leitt til vandræða fyrir þau að sinna þessari þjónustu því alls óljóst er hvort eða hvernig þau geta brugðist við þessum tíðindum,“ segir í fundargerð hreppsnefndar.

Hrunamenn meta málið svo að Árborg sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og geti það haft veruleg áhrif á samvinnu sveitarfélagana á Suðurlandi og þá stöðu að byggja upp Selfoss sem höfuðstað Suðurlands.

„Hreppsnefnd Hrunamannahrepps efast um að sveitarfélagið muni kaupa nokkra þjónustu af sveitarfélaginu Árborg á sviði fræðslumála og mun leita annarra leiða með öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi að leysa þau mál,“ segir ennfremur í bókuninni.

Fyrri greinKrókur á móti bragði hjá meirihlutanum
Næsta greinLeituðu að öldruðum manni við Eyrarbakka