Munaði 0,04% á lægstu tilboðunum

Vörubílstjórafélagið Mjölnir á Selfossi bauð lægst í enduruppbyggingu Uxahryggjavegar milli Skarðs og Brautartungu en tilboð voru opnuð í vikunni.

Aðeins munaði 46.500 krónum á tveimur lægstu tilboðunum eða 0,04 prósentum.

Tilboð Mjölnis hljóðaði upp á 116.517.500 kr. en tilboð Þróttar ehf á Akranesi var 116.564.000 kr.

Þessi tvö tilboð voru þau einu sem voru undir 118,8 milljón króna áætluðum verktakakostnaði.

Skagfirskir verktakar ehf buðu rúmar 122,2 milljónir króna í verkið og tilboð Borgarverks ehf var tæpar 124 milljónir króna.

Lengd vegarkaflans sem á að endurbyggja er 5,42 km og er stefnt að verklokum þann 1. nóvember árið 2016.

Fyrri greinBýst við mik­illi frægð á Sel­fossi
Næsta greinVel heppnaðar ungmennabúðir í Hveragerði