Mun ekki ganga um í landsliðsbúningnum

Sigurður Ágústsson, matreiðslumeistari í Tryggvaskála á Selfossi, hefur verið valinn í kokkalandsliðið, sem æfir nú stíft fyrir Ólympíuleika sem haldnir verða í Þýskalandi í október.

Sigurður fer þannig inn í hóp margra af færustu kokka landsins, en ekki er langt síðan Sigurður gekk til liðs við Tryggvaskála, raunar eftir að hafa dúxað í námi sínu í Menntaskólanum í Kópavogi.

Sigurður segir það skipta miklu máli fyrir sig og veitingahúsið Tryggvaskála að hafa verið valinn í landslið kokka. „Þetta er ákveðinn gæðastimpill og góð auglýsing fyrir veitingahúsið, auk þess sem þetta er gott faglega fyrir mig,“ segir Sigurður í viðtali við Sunnlenska.

„Þetta heldur manni á tánum, í þessum æfingum sér maður ýmislegt nýtt og fróðlegt sem er gott fyrir mig og gott fyrir eldhúsið hjá okkur hér í Tryggvaskála,“ segir hann.

Sigurður segir æfingar nokkuð stífar, enda styttist í stóra keppni. „Það er mikið álag og þetta snýst líka um að æfa hópinn. Þetta eru ákveðin meginatriði, svo sem að fara vel yfir viðkomandi rétti, breyta og þróa og negla þetta svo niður þegar við erum orðnir ánægðir,“ segir Sigurður. Æft er 4-5 sinnum í mánuði sameiginlega, en hann þarf jafnframt að æfa sig heimavið.

Sigurður segir að hann muni kannski ekki ganga um í landsliðsbúningnum í Tryggvaskála, en ef mikið liggur við, eins og hann orðar það, er allt eins líklegt að hann taki hann fram.

Fyrri greinVarað við óveðri á morgun
Næsta greinHamar vann langþráðan sigur