Mun bjóða upp á útsýnisflug og leiguflug

Búið er að stofna nýtt félag fyrir flugrekstur og tengda starfsemi á Selfossi. Félagið mun sinna farþegaflugi frá Selfossflugvelli og víðar.

Að félaginu standa um þrjátíu aðilar sem komu á stofnfund þess og nú þegar hefur verið aflað um 20 milljónum króna í hlutafé félagsins. Ætlunin er að fljúga með farþega, bjóða upp á útsýnisflug með ferðamenn, sem og ýmiskonar leiguflug sem til fellur. Höfuðstöðvar félagsins flugaðstaða og þjónusta við flugvélar verða á Selfossflugvelli.

Hefur félagið óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um lóðir fyrir starfsemina á vallarsvæðinu, sem og leyfi til starfseminnar og hefur bæjarráð tekið vel í hugmyndir hins nýja félags. Ætlunin er að hefja rekstur hins nýja félags eins fljótt og auðið er en til að byrja með er ráðgert að nota litlar, fjögurra til átta sæta flugvélar, og miða við hægan vöxt í starfseminni.

Kristján Bergsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir stofnun félagsins vera vegna eftirspurnar sem hann og aðrir sem í hluthafahópnum hafa orðið varir við að undanförnu. „Við höfum fundið fyrir vöntun á afþreyingu fyrir ferðamenn hér í þessum landshluta, og með þessu er verið að bregðast við slíku,“ segir Kristján.

Hann segir framboð útsýnisflugs á flugvélum ekki hafa aukist í takt við útsýnisflug á þyrlum og ætlunin sé að bæta úr því.

Fyrri greinNilsen sigraði á Hálandaleikunum
Næsta greinStyrkur í höfn fyrir stækkun Kirkjuhvols