Múli kominn í eigu sveitarfélagsins

Nýverið eignaðist Sveitarfélagið Árborg húsið Múla við Eyraveg á Selfossi, þar sem Tónlistarskóli Árnesinga er til húsa. Húsið var í eigu Verktækni ehf og keypti sveitarfélagið hlutafé í félaginu.

„Kaup á húsnæði Tónlistarskólans að Eyravegi 9 í stað þess að leigja húsnæðið eru hagstæð fyrir sveitarfélagið, enda létta þau greiðslubyrði sveitarfélagsins sem nemur 6 milljónum króna árlega,“ segir í bókun bæjarstjórnar vegna kaupanna.

„Þá hafa kaupin ekki áhrif til hækkunar hlutfalls skulda sveitarfélagsins af tekjum þess, þar sem leiguskuldbinding samkvæmt leigusamningi um húsið, sem verið hefur í gildi, reiknast sem skuld í bókum sveitarfélagsins. Loks mun sveitarfélagið með kaupunum eignast húsnæðið sem er sérhannað til tónlistarkennslu og hentar vel því góða starfi sem unnið er í Tónlistarskóla Árnesinga.“