Múlakot verður friðlýst

Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt sveitarstjórn Rangárþings eystra að Múlakot í Fljótshlíð verði friðlýst. Byggðaráð fagnaði málinu á síðasta fundi sínum.

Um er að ræða friðlýsingu gömlu íbúðar- og veitingahúsanna, auk annarra húsa á gamla Múlakotsreitnum, en þar stunduðu Lára og Ólafur Túbals veitinga- og búrekstur auk þess sem Ólafur var þjóðkunnur listamaður. Í Múlakoti dvöldu margir þekktir listamenn á fyrri hluta síðustu aldar.

Einnig eru uppi hugmyndir um verndun og endurnýjun á hinum merka skrúðgarði sem kenndur er við Guðbjörgu Þorleifsdóttur sem var frumkvöðull og aðalræktandi garðsins.

„Byggðarráð leggur áherslu á það að nauðsynlegt er að eignarhald húsanna og garðsins verði ekki í einkaeigu þannig að opinberir aðilar geta komið að endurnýjun, viðhaldi og endurreisn þessa húsnæðis og skrúðagarðs. Byggðarráð fagnar og mælir með því að umrædd mannvirki og skrúðgarður verði friðlýst,“ segir í bókun ráðsins.

Fyrri greinSkora á Alþingi að hætta ekki við Hamar
Næsta greinEyþór Ingi syngur alla vikuna