Mottusnyrting í Mottumars

Gústaf Lilliendahl á Stofunni á Selfossi býður upp á mottusnyrtingu fyrir herramenn í marsmánuði.

Þriðja árið í röð stendur átakið Mottumars yfir þar sem peningum er safnað fyrir Krabbameinsfélagið sem ætlaðir eru til fræðslu og forvarna fyrir karlmenn.

Gústi á Stofunni lætur ekki deigan síga því auk þess að skarta vígalegri mottu býður hann upp á mottusnyrtingu. Greiðslan fyrir snyrtinguna er í formi frjálsra framlaga að lágmarki 500 krónur.

“Menn geta fengið mottusnyrtingu með klippingunni og greiða þá sérstaklega fyrir hana í safnbauk á borðinu hjá mér. Eins geta menn dottið hérna inn af götunni ef þeir vilja bara mottusnyrtingu,” sagði Gústi í samtali við sunnlenska.is.

Árlega greinast á Íslandi að meðaltali 716 karlar með krabbamein. Þetta eru synir, bræður, pabbar, afar, vinir og makar.