Mótsvar við öllum lundabúðunum

Alda Björk og Atli í nýju versluninni á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í byrjun desember mun verslunin Made in Ísland, Matur & list, opna að Austurvegi 44 á Selfossi. Verslunin mun eingöngu selja vörur sem eru framleiddar á Íslandi með áherslu á íslensk hráefni.

Að versluninni standa hjónin Alda Björk Ólafsdóttir og Atli Lilliendahl en þau starfa í ferðaþjónustu, ásamt því að vera með framleiðslu á ýmsum matvælum.

„Við höfum orðið vör við eftirspurn ferðamanna eftir íslenskri vöru og andúð þeirra á svokölluðum lundabúðum, sem eru um allt land og yfirfullar af ódýrum minjagripum framleiddum í Kína, sem hafa enga tengingu við íslenskt handverk eða framleiðslu,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.

Alda og Atli eru sjálf með framleiðslu á ýmsum matvælum. Þau reka tilraunaeldhús sem þróar framleiðsluaðferðir og nýjar vörur með áherslu á að nýta hráefni sem er annaðhvort hent eða hefur lágt markaðsverð. Starfsemi þessi fer fram á Hellu á Rangárvöllum undir merkjum fyrirtækis þeirra Viking Kitchen. Þau framleiða m.a. Krispa fiskisnakk sem hefur heldur betur slegið í gegn hjá þeim sem hafa smakkað. sunnlenska.is/Jóhanna SH

„Þegar við sáum húsnæðið að Austurvegi 44 auglýst til leigu, fór hugmynd okkar um að opna gjafavöruverslun, sem höfðar til Íslendinga og ferðamanna sem vilja íslenskt, á flug. Á innan við viku vorum við búin að skrifa undir leigusamning.“

Alda segir að fyrirkomulag versluninnar sé ekki hefðbundið og markmiðið sé að gefa sem flestum framleiðendum möguleika á að koma sinni vöru á framfæri.

Alda og Atli voru á fullu að raða í hillur þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði. Það er óhætt að segja að vöruúrvalið í versluninni verður einkar fjölbreytt og á það sameiginlegt að vera allt framleitt á Íslandi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Handverk og matargerð
Í versluninni verður boðið upp á margs konar varning sem á það sameiginlegt að vera íslensk framleiðsla. „Okkar slagorð er Matur & List, sem sem þýðir að við munum leggja áherslu á handverk, list og matargerð. Verslunin mun bjóða framleiðendum að leigja hillupláss og verðleggja sínar vörur eftir eigin höfði. Verslunin mun ekki innheimta þóknun fyrir söluna. Einnig verður listamönnum og framleiðendum listmuna boðið að hafa sölusýningar í versluninni.“

„Við viljum tryggja að Íslendingar og erlendir ferðamenn geta verslað í okkar verslun og verið 100% vissir um að vörurnar í versluninni séu hannaðar og framleiddar á Íslandi. Undanfarnar vikur hef ég verið að kynna verslunina fyrir ýmsum samtökum íslenskra framleiðenda, svo sem Samtökum smáframleiðenda og Beint frá býli og fleiri, og fengið frábær viðbrögð,“ segir Alda að lokum, spennt fyrir opnuninni.

Made in Ísland á Facebook

Í versluninni verður m.a. hægt að kaupa íslenskt handverk sem er einstakt að mörgu leyti. Þessir skartgripir eru búnir til úr lambaskinni og fiskroði. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Í Made in Ísland verður hægt að fá fjölbreytt úrval af íslenskri gæða matvöru. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinMennta- og barnamálaráðherra heimsótti Hveragerði
Næsta greinML sveitin sigraði á HSK mótinu