Mótorhjólamaður á flótta undan lögreglu endaði í skafli

Lögreglan á Suðurlandi kærði sex ökumenn í síðustu viku fyrir að nota farsíma sinn án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

Þá reyndust sex ökumenn réttindalausri við akstur en þeir höfðu verið sviptir ökurétti vegna fyrri brota. Tveir þeirra eru grunaðir um að hafa verið ölvaðir við akstur.

Annar þeirra var á mótorhjóli á Höfn í Hornafirði og var hann að endingu handtekinn þar sem hjól hans festist í skafli á gangstíg. Hann hafið áður ekið töluverða stund um flughálar götur bæjarins á undan lögreglu og sinnti í engu stöðvunarmerkjum sem gefin voru. Maðurinn gisti fangageymslur um nóttina en fór svo hjóllaus frjáls ferða sinna deginum eftir. Lögreglan mun gera kröfu um upptöku mótorhjólsins vegna ítrekaðra brota mannsins.

Sá þriðji sem er grunaður um að hafa ekið ölvaður var með ökuréttindin í lagi en mun líklega tapa þeim fljótlega.

Þá kemur fram í dagbók lögreglunnar að einn var kærður fyrir að flytja of þungan farm í vikunni. Hann var á Suðurlandsvegi og farmurinn á þriðja tonn yfir leyfðri þyngd.

Fyrri greinSöfnuðu 1,3 milljónum króna fyrir Barnaspítala Hringsins
Næsta grein„Svarar vandræðalegum spurningum“