Mótmæla nýju póstnúmeri

Íbúar í dreifbýli Ölfuss gengu á fund bæjarstjóra síns í dag og afhentu honum undirskriftarlista þar sem nýrri póstáritun í dreifbýlinu er mótmælt.

Póstnúmerið 816 Þorlákshöfn var tekið upp um áramót en um 200 íbúar sem skrifuðu undir mótmælalistann vilja að póstnúmerið verði 816 Ölfus.

„Við teljum að það sé miklu meira upplýsandi fyrir alla að fá að kenna sig við sín héruð. Sem dæmi þekki ég mann með fyrirtæki í Ölfusi en hefur lengst af þurft að nota póstnúmerið „Selfoss“ eða nú „Þorlákshöfn“, en hann hefur lent í því að fólk fer á Selfoss eða í Þorlákshöfn og finni ekki fyrirtækið hans af því hann er svo í Ölfusi,“ segir Hallgrímur Óskarsson, einn íbúanna.

Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Ölfuss, tók við undirskriftalistanum en hann segist ekki hafa skoðun á málinu. „Mér er eiginlega nokk sama, ég vil bara að íbúarnir séu nokkuð ánægðir. Það skiptir mig engu máli hvort það sé 816 Þorlákshöfn eða 816 Ölfus.“

Bæjarstjórinn mun leggja undirskriftirnar fyrir bæjarráð Ölfuss og svo fer erindið til póstnúmeranefndar Íslandspóst sem tekur endanlega ákvörðun í málinu.

RÚV greindi frá þessu.

Fyrri grein„Útileikirnir komu í bakið á okkur”
Næsta greinNý kirkja og menningarhús á Hvolsvelli